Kosmos Kaos - Ragnheiður Jónsdóttir
lau., 02. sep.
|Hveragerði
Ragnheiður er einn virtasti listamaðurþjóðarinnar og hlaut hún í ár heiðursviðurkenningu frá Myndlistarráði fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar.
Tími og staður
02. sep. 2023, 15:00 – 22. des. 2023, 17:00
Hveragerði, Austurmörk 21, 810 Hveragerði, Ísland
Nánari upplýsingar
Ragnheiður er einn virtasti listamaður þjóðarinnar og hlaut hún í ár heiðursviðurkenningu frá Myndlistarráði fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar.
Ragnheiður hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur frá þeim tíma unnið óslitið að myndlist til dagsins í dag. Þráðurinn í verkum Ragnheiðar er sjálfblekkingin – blindnin – græðgin – einsemdin – andvaraleysið – umhverfið – heimurinn okkar. Ragnheiður segir að myndlist sé í hennar huga samtal listamannsins og áhorfandans. Að tilganginum sé náð þegar að henni tekst að rumska við áhorfandanum.
Ragnheiður Jónsdóttir er Árnesingur í báðar ættir. Móðir hennar Sigurbjörg var dóttir Ingvars Hannessonar bónda að Skipum Stokkseyrarhreppi og fyrri eiginkonu hans Vilborgar Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ingvar bóndi á Skipum og Ásgrímur Jónsson listmálari voru systrasynir. Mæður þeirra voru systurnar Sigurbjörg og Guðlaug frá Vantsholti í Flóa. Faðir Ragnheiðar var Benedikt sonur Guðjóns Jónssonar bónda frá Seli og eiginkonu hans Kristjönu Jónsdóttur frá Grímsfjósum Stokkseyri. Þau bjuggu að Leiðólfsstöðum Stokkseyrarhreppi.
Þegar horft er yfir höfundarverk Ragnheiðar Jónsdóttur á sviði teikninga og dráttlistar í íslenskri listasögu sést bersýnilega hve einstök staða hennar er. Sýningin Kosmos/Kaos er haldin á nítugasta afmælisári hennar og skilaboð Ragnheiðar frá áttunda áratug síðustu aldar, um kvenréttindi, umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð, eiga enn vel við í dag. Í grafíkverkum Ragnheiðar birtast hversdagsleg fyrirbæri hlaðin táknum og vísa í vaxandi iðnað, pólitískt umrót og deilur, áníðslu á náttúrunni, félagslegan aktívisma, feðraveldið og kvenréttindahreyfinguna. Verk hennar eru beitt og fersk og hróplega áríðandi í umhverfis- og samfélagsmálum nútímans. Verk frá upphafi ferils Ragnheiðar einkenndust af öflugum symbólisma og nákvæmum, krefjandi vinnubrögðum með ríkri áherslu á smáatriði, en slíkar aðferðir eru dæmigerðar fyrir grafíska list. Ríkjandi stef í verkum hennar eru óþægileg og forvitnileg – þrungin súrrealisma og þurri kímnigáfu.
Hvaða lærdóm má draga af sextíu ára ferli Ragnheiðar sem frumkvöðuls í grafískri list og látbrigðateikningum? Síbreytileg og stöðugt vaxandi list hennar vísar í eðlislæga eiginleika mannsins – þörfina fyrir frelsi, abstrakt, öndun og hreyfingu, mitt í basli hversdagsins. Ferill Ragnheiðar ber vitni um þau áhrif sem listamaður getur haft á samfélag sitt, þann kraft sem býr í rödd eins listamanns sem vekur athygli á málefnum, hvetur fólk til aðgerða og ýtir undir samfélagslegar og pólitískar breytingar kynslóð eftir kynslóð.
Sjá nánar á heimasíðu safnsins: listasafnarnesinga.is.
Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.